Fótbolti

Baðaðir geislum í vítakeppninni, níddir og rúður í liðsrútu brotnar

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah var með græna leysigeislaslykju yfir andlitinu áður en hann tók vítið sitt gegn Senegal. Stuðningsmenn Senegal reyndu allt til að koma honum úr jafnvægi.
Mohamed Salah var með græna leysigeislaslykju yfir andlitinu áður en hann tók vítið sitt gegn Senegal. Stuðningsmenn Senegal reyndu allt til að koma honum úr jafnvægi. Skjáskot/ESPN/efasocial

Liverpool-maðurinn Mohamed Salah var með græna leysigeisla í andlitinu þegar hann tók sitt víti fyrir Egyptaland í úrslitaleiknum gegn Senegal í gær, um laust sæti á HM í fótbolta. Rúður í rútu Egypta voru brotnar fyrir leik og þeir urðu fyrir ýmsu öðru áreiti.

Senegal var á heimavelli í þessum seinni leik liðanna, eftir að hafa tapað 1-0 í Egyptalandi. Senegal vann leikinn í gær 1-0 og því varð að grípa til vítakeppni og rétt eins og á Afríkumótinu fyrr á þessu ári hafði Senegal þar betur. Sadio Mané tryggði sigurinn með síðasta vítinu.

Salah og liðsfélagar hans voru truflaðir í sínum vítum, sem og markvörður Egypta, með fjölda leysigeisla sem beint var að þeim frá senegölskum áhorfendum.

Ekki er ljóst hvort eða hvaða afleiðingar þetta mun hafa en beðið er viðbragða frá FIFA sem eflaust mun að minnsta kosti sekta senegalska knattspyrnusambandið eða refsa því með heimaleikjabanni. Áhorfendur þustu inn á völlinn að leik loknum og Salah þurfti vernd á meðan að hann gekk af velli.

Egypska knattspyrnusambandið sendi frá sér yfirlýsingu eftir leik og sagði að formleg kvörtun hefði verið lögð inn vegna árása á egypska liðið og vegna borða og spjalda sem innihéldu kynþáttaníð og var beint að Egyptum. Rúður í liðsrútu Egypta voru brotnar.

Egypska sambandið segir níðinu sérstaklega hafa verið beint að Salah, fyrirliða liðsins, og að með kvörtuninni hafi fylgt ljósmyndir og myndbandsupptökur til sönnunar.


Tengdar fréttir

Mané skaut Senegal á HM

Sadio Mané reyndist hetja Senegal er hann tryggði liðinu farseðilinn á HM eftir 3-1 sigur gegn Egyptum í vítaspyrnukeppni. Liðsfélagi hans hjá Liverpool, Mohamed Salah, og félagar hans í egypska landsliðinu sitja hins vegar eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×