Dómur í máli mannsins féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Málið má rekja til þess að árið 2010 rannsakaði lögregla fyrirhugaðan innflutning á miklu magni af kókaíni.
Lögregla grunaði manninn um að hafa með höndum skipulag og stjórn á dreifingu fíkniefnanna hér á landi, í samstarfi við aðra. Sími mannsins var hleraður og gerð var húsleit á heimili mannsins í tengslum við rannsóknina. Eftir húsleitina var maðurinn úrskurðaður í gæsluvarðhald, þar sem honum var haldið í einangrun.
Eftir að honum var sleppt úr einangrun var mál hans látið niður falla. Maðurinn, sem taldi sig hafa orðið fyrir skakkaföllum vegna aðgerða lögreglu höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu vegna aðgerða lögreglu.
Það mál endaði fyrir Hæstarétti, eins og fjallað var um á Vísi á sínum tíma, og voru honum dæmdar tvær milljónir í miskabætur.
Á grundvelli þess dóms gerði maðurinn kröfu á hendur ríkinu um greiðslu skaðabóta vegna tímabundins atvinnutjóns, varanlegs miska og þjáningabóta. Var manninum sagt upp úr vinnu hans eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi, auk þess sem að hann glímdi við kvíða og aðra kvilla.
Maðurinn lagði fram yfirmat þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að hann hafi orðið fyrir heilsutjóni sem metið hafi verið til 30 prósent varanlegs miska. Þá hafi hann orðið fyrir tímabundu atvinnutjóni. Alls krafðist maðurinn rétt rúmlega fimmtán milljóna í bætur vegna málsins.
Í dómi héraðsdóms segir að íslenska ríkið verði að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að tjón mannsins stæði af lögmætum aðgerðum lögreglu. Féllst dómurinn því á kröfu mannsins. Þarf íslenska ríkið því að greiða honum fimmtán milljónir króna vegna aðgerða lögreglu í apríl 2010.