Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - HK 26-25 | Hrikalegt bakslag fyrir HK-inga

Sindri Sverrisson skrifar
Afturelding vann tveggja marka sigur gegn HK í Kórnum fyrr í vetur, 30-28.
Afturelding vann tveggja marka sigur gegn HK í Kórnum fyrr í vetur, 30-28. vísir/vilhelm

Vart gæti orðið við aukna notkun hjartalyfja í Mosfellsbæ ef fram heldur sem horfir hjá liði Aftureldingar í Olís-deild karla í handbolta á þessu ári. Liðið náði að komast yfir á síðustu stundu gegn HK í dag og vinna 26-25.

Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sigurmarkið með föstu skoti sem fór í hægri samskeytin, þaðan í bakið á Sigurjóni Guðmundssyni í marki HK, og inn.

Segja má að óhamingja HK-inga hafi kristallast í þessu lokamarki leiksins en þeir köstuðu hreinlega frá sér forystunni á lokakafla leiksins, með miklu stressi og röð mistaka.

Sigur hefði getað gefið HK veika von um að bjarga sér frá falli en nú hljóta allir í Kórnum að vera farnir að huga að lífinu í Grill 66-deildinni á nýjan leik því slá má því föstu að þar liggi framtíð liðsins á næstu leiktíð.

Afturelding hefur nú unnið báða leiki sína eftir áramót, í miklum háspennuleikjum gegn Selfossi og HK, og er með 16 stig í 6. sæti.

Í sigrinum gegn Selfossi meiddist hins vegar einn helsti lykilmaður liðsins, hægri hornamaðurinn Árni Bragi Eyjólfsson, og ljóst er að hann spilar ekki meira á þessari leiktíð. Mosfellingar þurfa því að læra upp á nýtt að spjara sig án hans, og þeir urðu líka að spjara sig án hörkutólsins Gunnars Malmquist Þórssonar í seinni hálfleik í dag því Gunnar fékk þrjár brottvísanir og þar með rautt spjald í fyrri hálfleiknum.

HK hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik en líkt og í þeim seinni komst Afturelding marki yfir í lokin. Blær Hinriksson skoraði þá eitt af sínum sjö mörkum gegn gömlu félögunum.

HK-ingar komust hins vegar fljótt þremur mörkum yfir í seinni hálfleik og virtust líklegir til að innbyrða sinn annan sigur á leiktíðinni, en allt hrökk í baklás hjá þeim á lokakaflanum þrátt fyrir engan glansleik heimamanna og Afturelding vann að lokum nauman sigur.

Af hverju vann Afturelding?

Það munaði auðvitað litlu sem engu í leiknum en Mosfellingar búa að því að hafa ósjaldan lent í miklum spennuleikjum og nutu sín mikið betur þegar allt var undir heldur en taugaóstyrkir gestirnir.

Hverjir stóðu upp úr?

Blær Hinriksson skoraði sjö mörk gegn sínum gömlu félögum og Sveinn Andri Sveinsson var með fullkomna nýtingu en gerði reyndar tvö slæm mistök í fyrri hálfleiknum. Andri Sigmarsson Scheving varði vel í seinni hálfleik og það gerði gæfumuninn.

Hjörtur Ingi Halldórsson var frábær í sóknarleik HK í fyrri hálfleik en náði ekki að fylgja því eftir í seinni hálfleik þó að hann hafi endað með sjö mörk. Einar Pétur Pétursson var öruggur á vítalínunni og skilaði sínu vel í sókninni, og endaði markahæstur með 8 mörk, og Kristján Ottó Hjálmsson var orkumikill í vörn HK.

Hvað gekk illa?

HK-ingar virtust hreinlega skjálfandi á beinunum þegar mest lá við á lokakaflanum og þannig klúðruðu þeir tækifærinu til sigurs. Einar Bragi Aðalsteinsson var mjög lengi í gang og spurning hvort það hafi truflað hann að nú sé vitað að hann fari til FH í sumar. Mönnum gekk illa að hanga inni á vellinum og alls voru 12 brottvísanir veittar. Þar af fékk Gunnar Malmquist þrjár og lauk leik snemma sem gerði liðsfélögum hans erfiðara fyrir.

Hvað gerist næst?

Afturelding á fyrir höndum leik við botnlið Víkings á fimmtudagskvöld í Víkinni en HK tekur þá á móti Haukum.

Gunnar: „Veit ekki hvort hann hefur horft eitthvað á alþjóðlegan handbolta“

„Eigum við ekki að segja að þetta sé munurinn á liðinu núna og fyrir jól?“ spurði Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar.

„Fyrir jól voru sex svona leikir sem að við náðum ekki að klára með sigri, en nú erum við búnir með tvo svona spennuleiki eftir áramót og höfum unnið báða. Það er oft stutt á milli í þessu sporti og ég er ánægður með karakterinn í strákunum að klára þetta svona, og það var mikið basl á okkur í dag.

Við mættum ekki værukærir. Við vissum að HK-liðið væri mjög gott og það verður ekki af þeim tekið að þeir gerðu vel. Þetta voru tveir ólíkir hálfleikir. Í þeim fyrri var vörn og markvarsla skelfileg hjá okkur og sóknarleikurinn frábær. Svo snerist það við í seinni – vörnin var mikið betri og við fengum frábæra markvörslu.

Sóknarleikurinn í seinni hálfleik var basl og við svolítið einhæfir. Við missum örvhenta hornamanninn okkar í síðasta leik og erum að reyna að leysa það, með rétthentan í hægra horninu og leysum mikið inn. Við höfðum tvær æfingar til að reyna að leysa þetta einhvern veginn en vorum of einhæfir í seinni hálfleik. Við þurfum að nýta næstu daga í að finna betri lausnir,“ sagði Gunnar og staðfesti að Árni Bragi myndi ekki spila meira í vetur vegna axlarmeiðsla:

Árni Bragi ekki meira með á leiktíðinni

„Hann fer í aðgerð á morgun og er frá út leiktímabilið. Ég hlýt að vera kominn með mastersgráðu í krísustjórnun, miðað við mína reynslu síðasta eitt og hálfa árið hérna. Maður er alltaf að púsla upp nýju liði og það heldur áfram. Auðvitað er slæmt að missa hann [Árna Braga] en við erum vanir þessu og oft að missa lykilmenn út,“ sagði Gunnar.

Hann gaf lítið fyrir þau orð Sebastians Alexanderssonar þjálfara HK að sóknarmenn Aftureldingar gengju of harkalega fram, með höndina á undan sér þegar þeir færu á vörn HK:

„Ég veit ekki hvort hann hefur horft eitthvað á alþjóðlegan handbolta. Ég held að við séum ekkert öðruvísi en aðrir handboltamenn. Við förum auðvitað mikið í árásir einn gegn einum. En ég vísa þessu að sjálfsögðu á bug. Ég ætla ekki í eitthvað orðaskak við hann. Það er alltaf gaman að Basta og við þurfum á mönnum eins og honum að halda en maður er ekkert alltaf sammála honum. Honum er frjálst að hafa sína skoðun.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira