Sjálfstæðisfélagið Ægir hefur samþykkt framboðslista flokksins í sveitarfélaginu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, sem fara fram 14. maí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að á listanum sé fjölbreyttur hópur fólks með víðtæka þekkingu og reynslu úr ólíkum áttum.
Mikil endurnýjun sé á listanum en þar einnig að finna reynslumikla einstaklinga á sviði sveitarstjórnarmála. Þá séu bæði frambjóðendur úr Þorlákshöfn og dreifbýli Ölfuss á listanum og margir fæddir og uppaldir í sveitarfélaginu.
Sjálfstæðiflokkurinn hefur verið í meirihluta síðasta kjörtímabilið og segir í tilkynningunni að undir stjórn hans hafi sveitarfélagið vaxið og dafnað. Velferð íbúa og uppbygging í innviðum hafi verið áherslumál auk atvinnumála.
Aldrei hafi verið fleiri íbúar í sveitarfélaginu og mikill kraftur sé í uppbyggingu, bæði íbúðarhúsnæðis og iðnaðarhúsnæðis. Höfnin sé þá að stækka, atvinnutækifærum fjölgi og þjónusta hafi verið aukin með áherslu á börn, fjölskyldur og eldri borgara.
Listann í heild sinni má sjá hér að neðan:
- Gestur Þór Kristjánsson, 49 ára, húsasmíðameistari og forseti bæjarstjórnar
- Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, 29 ára, bóndi og viðskiptafræðingur
- Grétar Ingi Erlendsson, 38 ára, sölu- og markaðsstjóri og formaður bæjarráðs
- Erla Sif Markúsdóttir, 33 ára, grunnskólakennari í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
- Guðlaug Einarsdóttir, 45 ára, grunnskólakennari í Grunnskólanum í Þorlákshöfn
- Geir Höskuldsson, 31 árs, byggingaiðnfræðingur
- Davíð Arnar Ágústsson, 25 ára, kennaranemi og körfuknattleiksleikmaður
- Margrét Polly Hansen Hauksdóttir, 40 ára, hótelstjórnandi og frumkvöðull
- Sigríður Vilhjálmsdóttir, 38 ára, lögfræðingur og formaður fræðslunefndar
- Hjörtur Sigurður Ragnarsson, 33 ára, sjúkraþjálfari
- Bettý Grímsdóttir, 48 ára, hjúkrunarfræðingur
- Oskar Rybinski, 19 ára, nemi og starfsmaður í félagsmiðstöð
- Steinar Lúðvíksson, 38 ára, sérfræðingur hjá Landsvirkjun
- Anna Lúthersdóttir, 79 ára, heldri borgari