Guðni Bergsson var formaður KSÍ fyrstu átta mánuði ársins eða þar til að hann sagði af sér á stjórnarfundi 29. ágúst, eftir stíf fundahöld vegna gagnrýni á viðbrögð KSÍ við frásögnum af ofbeldismálum landsliðsmanna.
Starfslokasamningur var gerður við Guðna og samkvæmt ársreikningi námu laun og launauppgjör við hann samtals 18,6 milljónum króna.
Á árinu 2020 fékk Guðni 19,7 milljónir króna eða sem samsvarar að meðaltali um 1,64 milljón króna á mánuði. Miðað við þessar tölur má ætla að Guðni hafi fengið ellefu mánuði greidda á síðasta ári en unnið átta.
Vanda Sigurgeirsdóttir var kjörin formaður til bráðabirgða í byrjun október og námu laun og bifreiðastyrkur til hennar vegna síðustu þriggja mánaða ársins um 4,4 milljónum króna samkvæmt ársreikningi, eða um 1,47 milljón króna á mánuði.
Vanda sækist eftir endurkjöri á ársþingi KSÍ sem haldið verður á laugardaginn en etur kappi við Sævar Pétursson í formannskjörinu.
Klara með sömu laun og árið áður
Í ársreikningi kemur einnig fram að framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, hafi fengið 16,2 milljónir króna í laun og bifreiðastyrk, samanborið við 16,3 milljónir árið 2020. Samanlögð laun formannanna og framkvæmdastjóra námu því tæplega 40 milljónum króna.
Klara tók sér um það bil þriggja vikna leyfi í september, um það leyti sem Guðni og stjórn KSÍ sögðu af sér, eftir áskoranir þess efnis að hún segði einnig af sér.