Innlent

Ríflega 450 brautskráðir frá Háskóla Íslands á morgun

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. Vísir/Vilhelm

Háskóli Íslands brautskráir 455 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi á morgun, laugardaginn 19. Febrúar. Engin formleg athöfn verður í ljósi Covid en háskólinn lofar því að hátíðarsemning muni „svífa yfir vötnum,“ í Háskólabíó.

„Engin formleg brautskráningarathöfn er á dagskrá vegna samfélagsástandsins en brautskráningarkandídötum býðst að sækja prófskírteini sitt í Háskólabíó þennan dag þar sem hátíðarstemning mun svífa yfir vötnum,“ segir í tilkynningu um málið.

Afhendingu prófskírteina á morgun verður skipt upp eftir fræðasviðum. Hugvísindasvið mætir fyrst milli tíu og ellefu, Heilbrigðisvið og Verkfræði- og náttúruvísindasvið mæta milli ellefu og tólf, Menntavísindasvið mætir milli tólf og eitt, og að lokum mætir Félagsvísindasvið milli eitt og tvö.

Brautskráð er úr öllum deildum skólans, sem eru 26 talsins. 190 kandídatar eru að ljúka grunnámi en 265 eru að ljúka framhaldsnámi. Flestir eru frá Félagsvísindasviði, eða 176 kandídatar, en næst flestir eru frá Menntavísindasviði, alls 96 kandídatar. Þá eru 70 frá Hugvísindasviði, 60 frá Verfræði- og náttúruvísindasviði, og 53 frá Heilbrigðisvísindasviði.

„Við afhendingu prófskírteina verður sóttvarnaviðmiðum fylgt í hvívetna og eru kandídatar hvattir til að bera andlitsgrímur þegar þeir koma í Háskólabíó. Grímur og sótthreinsispritt verður einnig á staðnum fyrir þau sem það vilja,“ segir í tilkynningu um brautskráninguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×