Umræðan

Lýðræðisveislan

Sigríður Á. Andersen skrifar

Sjálfstæðismenn í Reykjavík taka nú ákvörðun um hvernig velja skuli frambjóðendur til borgarstjórnarkosninga í vor. Tillaga liggur fyrir um prófkjör af þeirri tegund sem algengust hefur verið þegar prófkjörsleiðin er á annað borð valin. Óhætt er að spá því að þessi tillaga verði samþykkt með miklum meirihluta í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík á fundi á morgun, fimmtudag. Prófkjör eru ekki gallalaus en að mörgu leyti skásta leiðin til að velja á framboðslista. Það er til mikils að vinna að ala ekki á göllunum.

Tillaga verður einnig gerð um að atkvæðisrétt hafi þeir flokksmenn sem hafa verið í flokknum 2 vikum fyrir kjördag. Undanfarin ár hefur hins vegar öllum sem skrá sig í flokkinn á kjörstað verið heimiluð þátttaka. Tillaga um breytingu á þessu, sem nú liggur frammi, virðist hafa vakið upp nokkra geðshræringu og talin til marks um mikinn lýðræðishalla. Bent er á, réttilega, að jafnan hafi margir skráð sig í flokkinn einmitt á prófkjörsstað. Varaformaður flokksins telur hina miklu nýliðun í kringum prófkjör flokknum mikilvæga og að hvers kyns þrengingar í þátttöku í prófkjörum séu ekki til þess fallnar að laða að flokknum nýtt fólk.

En er þetta nú ekki heldur djúpt í árinni tekið og um leið horft fram hjá öðrum kröfum sem gera má til þeirrar lýðræðisveislu sem mönnum er svo tamt að vísa til?

Telji menn knýjandi þörf á því að hægt sé að skrá sig í stjórnmálaflokk um leið og þeir fá tækifæri til þess að velja frambjóðendur er það til marks um að önnur sjónarmið en hagsmunir flokksins og annarra flokksmanna séu í fyrirrúmi.

Auðvitað eiga prófkjör að laða að stuðningsmenn flokksins. Það hafa prófkjör alltaf gert. Flokksbundnir sjálfstæðismenn eru margir tugir þúsunda. Þeir eins og aðrir landsmenn vita að valið er á alls kyns framboðslista með reglulegu millibili. Það rekur hvert prófkjörið annað. Áhugasamir þátttakendur í prófkjöri, bæði frambjóðendur og kjósendur, hafa mikið svigrúm til þess að tryggja sér þátttökurétt. Telji menn knýjandi þörf á því að hægt sé að skrá sig í stjórnmálaflokk um leið og þeir fá tækifæri til þess að velja frambjóðendur er það til marks um að önnur sjónarmið en hagsmunir flokksins og annarra flokksmanna séu í fyrirrúmi.

Kjörskrár eru almennt viðhafðar í öllum kosningum sem einhverju máli skipta. Hlutverk þeirra er þá að afmarka þá sem kosningarétt hafa og m.a. með þeim hætti að á einhverjum tímapunkti er þeim lokað. Þetta er ekki að ástæðulausu.

Hafa frambjóðendur til að mynda ekki rétt á að þekkja kjósendur sína? Frambjóðendur leggja mikið á sig til þess að kynna sig gagnvart kjósendum. Ekki síst nýir frambjóðendur. Til þess hafa þeir tímabundinn aðgang að flokksskrá sem þeir nota til þess að komast milliliðalaust í samband við þá sem kosningarétt hafa. Þegar stór hluti kjósenda fer á kjörskrá um leið og þeir greiða atkvæði þá á sér aldrei stað það samtal sem gæti bætt þessa veislu sem menn vilja kenna við lýðræði.

Þegar svo við bætist sú nýbreytni að halda prófkjör yfir margar vikur má ljóst vera að ekki þarf mikið til, til að uppistaða kjósenda í prófkjöri verði fólk sem skráir sig í og úr flokknum á sama deginum. Sömu mínútunni jafnvel.

Með rafrænum skráningum virðist vera minni fyrirstaða hjá fólki að skrá sig í stjórnmálaflokka. Ekki er ólíklegt að það sé vegna þess að fyrirstaðan er að sama skapi engin þegar kemur að því að skrá sig úr þessum sama flokki. Þetta hefur leitt til þeirrar þróunar að nýskráningar í Sjálfstæðisflokkinn á kjörstað hafa margfaldast frá því sem var og skipta nú þúsundum. Þegar svo við bætist sú nýbreytni að halda prófkjör yfir margar vikur má ljóst vera að ekki þarf mikið til, til að uppistaða kjósenda í prófkjöri verði fólk sem skráir sig í og úr flokknum á sama deginum. Sömu mínútunni jafnvel. Þekkt eru dæmi þess að stuðningsmenn frambjóðanda hvetji beinlínis til þess opinberlega að óflokksbundnir hafi þennan háttinn á og komi þannig á framfæri velvilja sínum gagnvart einum tilteknum frambjóðanda. Aðrir frambjóðendur hafa ekki nokkur tök á að nálgast þennan kjósanda.

Það er ekki fyrir hvern sem er að gefa kost á sér í prófkjöri. Það er átak fyrir nýja frambjóðendur að kynna sig og um leið keppa um athygli við aðra nýliða og þá sem sitja fyrir á fleti. Gera þarf ráð fyrir bæði tíma og peningum. Nýleg dæmi eru um prófkjörskostnað kjörinna fulltrúa upp á tugi milljóna króna. Í tilfelli þjóðþekktra stjórnmálamanna má ljóst vera að kynning á frambjóðendunum eða málstað þeirra kallaði ekki á slík fjárútlát.

Hins vegar er rétt að stjórnmálaflokkur hyggi að því að ekki eru allir viðhlæjendur vinir

Það er eðlilegt að frambjóðendur blási í herlúðra og smali sínu fólki til fylgis við sig. Hins vegar er rétt að stjórnmálaflokkur hyggi að því að ekki eru allir viðhlæjendur vinir og rétt eins og bankarnir þá ættu stjórnmálaflokkar að þekkja sína viðskiptavini. Það er ekki að ástæðulausu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert kröfu til þeirra sem velja á lista á flokksins að þeir séu flokksmenn. Sú regla var ekki sett formsins vegna heldur efnisins. Þegar stór hluti kjósenda í prófkjöri skráir sig í flokkinn samdægurs er óhjákvæmilegt að skerpa á þessari reglu, t.d. með því að loka kjörskrá nokkru áður en kjörfundur hefst.

Engin góð veisla gerir ráð fyrir óþekktum gestum sem kæra sig ekki um vinskap við gestgjafann. Ekki einu sinni svokallaðar lýðræðisveislur.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður og ráðherra.




Umræðan

Sjá meira


×