Bergerud og Gullerud greindust með kórónuveirusmit eftir tap Noregs gegn Svíþjóð á þriðjudagskvöld og eru þar með fyrstu leikmenn Noregs til að smitast á mótinu.
Samkvæmt norska miðlinum VG munu leikmennirnir tveir fara frá Bratislava í Slóvakíu, þar sem Noregur lék í milliriðli, með leigubíl til síns heima í Magdeburg í Þýskalandi (Gullerud) og Óðinsvéa í Danmörku (Bergerud) til að ljúka sóttkví.
Aðrir leikmenn norska hópsins ferðuðust til Búdapest til að mæta Íslendingum þar á morgun.
Ellefu leikmenn Íslands hafa greinst með kórónuveirusmit frá því að þeir fyrstu greindust fyrir rúmri viku og læknir norska landsliðsins óttast að smitum fjölgi einnig í norska hópnum:
„Já, það geri ég. Það hefur sýnt sig hjá öðrum liðum. Ég held að það séu bara Noregur og Spánn sem hafi sloppið við smit þar til núna. Þegar það hefur komið upp smit hjá hinum liðunum þá hafa fleiri fylgt næstu daga á eftir. Ég er búinn undir það,“ sagði Thomas Torgalsen, læknir norska landsliðsins, við NTB.