Einn heimilismaður hefur verið lagður inn á Landspítalann vegna veikinda sinna. Þetta staðfestir Sigrún Faulk, hjúkrunarframkvæmdastjóri á Grund, en RÚV greindi fyrst frá hópsýkingunni. Þetta er sú umfangsmesta sem greinst hefur á Grund frá því faraldurinn hófst.
Nær allir íbúar hafa verið þríbólusettir gegn Covid-19 og er lítið um alvarleg veikindi í hópnum.
„Við erum mjög þakklát fyrir að þetta er bundið við eina deild og öll áherslan hjá okkur er á að það haldist þannig, að það verði ekki hópsmit á fleiri deildum. Fólk er ekki svo veikt og við bara tökum einn dag í einu hérna,“ segir Sigrún í samtali við Vísi.
Íbúar almennt tekið þessu með ró
Heimsóknatakmarkanir hafa verið í gildi á hjúkrunarheimilinu og er heimilismönnum á öðrum deildum einungis heimilt að fá til sín einn gest á dag. Eru þeir beðnir um að fara sérstaklega varlega og taka hraðpróf áður en mætt er á heimilið.
Sigrún segir að nokkur fjöldi starfsmanna hafi lent í einangrun að undanförnu, líkt og á öðrum stórum vinnustöðum, og hjúkrunarheimilið því verið undirmannað.
„En þetta einhvern veginn gengur með góðum vilja og samstöðu, skilningsríkum aðstandendum og æðrulausu heimilisfólki, það er kannski fyrst og fremst það að íbúarnir hérna eru alveg einstakir.“
Um sé að ræða æðrulausa kynslóð sem hafi upplifað ýmislegt á sinni ævi og láti ekki hvað sem er slá sig út af laginu.
Fréttin hefur verið uppfærð.