Fótbolti

Nils Arne Eggen látinn: „Mesta goðsögn í sögu Rosenborg“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nils Arne Eggen vann fjölda titla með Rosenborg og náði eftirtektarverðum árangri með liðið í Meistaradeild Evrópu.
Nils Arne Eggen vann fjölda titla með Rosenborg og náði eftirtektarverðum árangri með liðið í Meistaradeild Evrópu. getty/Graham Chadwick

Nils Arne Eggen, fyrrverandi leikmaður og þjálfari Rosenborg, er látinn. Hann var áttræður.

Rosenborg greinir frá þessu á heimasíðu sinni. Þar er hann sagður mesta goðsögn í sögu félagsins.

Eggen lék með Rosenborg á árunum 1966-69 og varð tvívegis Noregsmeistari með liðinu. Hann gerði Rosenborg að tvöföldum meisturum 1971, þjálfaði norska landsliðið og var nálægt því að koma því á HM 1978 og gerði Moss að norskum meisturum 1987. Það er eini meistaratitilinn í sögu félagsins.

Eggen tók svo aftur við Rosenborg 1988 og stýrði liðinu til 2002 ef frá er talið tímabilið 1998. Þessi tími er mesta blómaskeið í sögu Rosenborg. Á því vann liðið norska meistaratitilinn þrettán sinnum og komst átta ár í röð í Meistaradeild Evrópu. Rosenborg komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar tímabilið 1996-97. Rosenborg tryggði sér sæti í átta liða úrslitunum með því að vinna AC Milan, 1-2, á San Siro í lokaumferð riðlakeppninnar.

Á þessu gullaldarskeiði vann Rosenborg einnig frækna sigra á Real Madrid og Borussia Dortmund.

Eggen tók í síðasta sinn við Rosenborg 2010, af Erik Hamrén, og gerði liðið að Noregsmeisturum. Alls vann Eggen norsku deildina fjórtán sinnum sem þjálfari Rosenborg og bikarkeppnina sex sinnum.

Síðustu árin voru erfið fyrir Eggen. Hann fór í nýrnaígræðslu 2015, hægri fóturinn var tekinn af honum 2018 og sá vinstri ári seinna. Árið 2011 létust bæði eiginkona hans og sonur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×