Handbolti

Guðmundur: Liðið sýndi stórkostlegan karakter að klára þetta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson var að mestu ánægður með frammistöðuna gegn Hollandi.
Guðmundur Guðmundsson var að mestu ánægður með frammistöðuna gegn Hollandi. epa/Tamas Kovacs

Guðmundi Guðmundsson, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var létt eftir sigurinn á Hollandi, 29-28, í kvöld. Ísland er komið með fjögur stig í B-riðli Evrópumótsins og ef það vinnur heimalið Ungverjalands á þriðjudaginn fer það með tvö stig inn í milliriðla.

„Ef ég tek þetta saman verð ég að hrósa liðinu. Ef við bíðum aðeins með sóknina gegn 5-1 var sóknarleikurinn okkar í þessum leik með því besta sem ég hef upplifað. Hann var algjörlega stórkostlegur,“ sagði Guðmundur við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn.

„Mér fannst vörnin halda megnið af leiknum og við spila hana mjög vel. Það er mjög erfitt að verjast þessu liði. Þeir eru gríðarlega hraðir og vel spilandi. Við fengum þrettán mörk á okkur í fyrri hálfleik sem var vel viðunandi. Þeir eru með gríðarlega mikla sóknargetu og ekkert auðvelt að verjast þeim.“

Klippa: Gummi Gumm eftir sigurinn gegn Hollandi

Ísland var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15-13, og hóf seinni hálfleikinn af krafti og komst mest fimm mörkum yfir. En svo hallaði undan fæti.

„Við byrjuðum þetta mjög vel í seinni hálfleik og byggðum upp forskot hægt og rólega. Svo breyttu þeir í 5-1 vörn. Við höfum æft sóknina gegn henni eins og kostur er. En eins og gerist stundum var eins og menn færu að verja forskotið að einhverju leyti,“ sagði Guðmundur.

„Það vantaði áræðni en á sama tíma klikkuðum við á dauðafærum. Þetta gerðist á sama tíma og svo fóru þeir að keyra hraðaupphlaupin á okkur. Við þurftum að skipta tveimur mönnum milli varnar og sóknar, meðal annars Ómari [Inga Magnússyni] sem var með tvær brottvísanir. Við vildum hafa hann í sókninni. Þetta voru samverkandi þættir en ég er ánægður með sigurinn, hann var frábær, og liðið sýndi stórkostlegan karakter að klára þetta.“

Guðmundur var ansi líflegur á hliðarlínunni og ekki í rónni þegar Hollendingar sóttu á.

„Í þessari stöðu þarf þjálfari að leita lausna. Mér fannst það hjálpa mjög mikið þegar Janus [Daði Smárason] kom inn á. Hann kom með nýja vídd í sóknina og það var gríðarlega mikilvæg ákvörðun. Við hefðum getað lokað þessu fyrr en fórum of illa með nokkur dauðafæri,“ sagði Guðmundur. „En við getum ekki kvartað. Við erum með tvo sigra og það er allt mögulegt gegn Ungverjum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×