„Ég er ánægður með dagsverkið. Þetta var nokkuð heilsteyptur leikur. Það voru 2-3 mínútur hér og þar sem voru ekki nógu góðar en heilt yfir var þetta flottur sigur,“ sagði Ómar í samtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir leik í Búdapest í kvöld.
Leikur íslenska liðsins var afar vel útfærður og það var með yfirhöndina nánast allan tímann.
„Við erum með gott plan og fylgjum því. Við vitum hvað við viljum gera og hverju við viljum ná fram í sókn og vörn. Þetta var klassa liðssigur,“ sagði Ómar. „Við vorum allir helvíti flottir í dag, einbeittir og hungraðir.“
Margra augu er á Ómari eftir frábært ár í fyrra þar sem hann fór á kostum með Magdeburg og var valinn Íþróttamaður ársins. Hann er meðvitaður um væntingarnar sem gerðar eru til hans.
„Ég finn alveg pressuna en ég set líka pressu á sjálfan mig. Það er bara gott og ég vil gera enn betur,“ sagði Ómar.
Hann segir að sigurinn í kvöld hjálpi að sjálfsögðu til í framhaldinu. Næsti leikur Íslands er gegn Hollandi á sunnudagskvöldið.
„Það er bara æfing á morgun, við þurfum bara að undirbúa okkur og mæta með hausinn skrúfaðan á,“ sagði Selfyssingurinn að lokum.