Handbolti

Lærisveinar Erlings lögðu Ungverja | Norðurlöndin unnu stórt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska handboltalandsliðinu unnu virkilega mikilvægan sigur í kvöld.
Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska handboltalandsliðinu unnu virkilega mikilvægan sigur í kvöld. Henk Seppen/BSR Agency/Getty Images

Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í hollenska landsliðinu í handbolta unnu nokkuð óvæntan þriggja marka sigur er liðið mætti heimamönnum í Ungverjalandi á EM í handbolta í kvöld í B-riðli okkar Íslendinga. Þá unnu norðurlöndin einnig stórsigra í sínum leikjum.

Hollendingar tóku forystuna snemma leiks og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Liðið hélt út fram að hléi og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 13-10, Hollendingum í vil.

Ungverjar minnkuðu muninn niður í eitt mark strax í upphafi síðari hálfleiks, en náðu þó ekki að jafna leikinn. Hollendingar náðu aftur fjögurra marka forskoti og brekkan aftur orðin brött fyrir heimamenn. 

Það var ekki fyrr en á lokamínútunum að Ungverjar jöfnuðu loksins metin í stöðunni 28-28. Hollenska liðið tók þá yfir og skoraði seinustu þrjú mörk leiksins og tryggði sér þar með þriggja marka sigur, 31-28.

Í öðrum leikjum kvöldsins unnu Frakkar góðan fimm marka sigur gegn Króötum, og eins og áður sagði unnu Norðurlandaþjóðirnar örugga sigra.

Danir sigruðu Svartfjallaland með níu mörkum, 30-21, Noregur vann tíu marka sigur gegn Slóvakíu 35-25, og að lokum unnu Svíar tólf marka sigur gegn Bosníu og Hersegóvínu, 30-18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×