Handbolti

Evrópumeistararnir hófu titilvörnina á sigri | Serbar unnu öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Spánverjar hófu titilvörn sína á sigri.
Spánverjar hófu titilvörn sína á sigri. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Evrópumótið í handbolta fór af stað með fjórum leikjum sem lauk nú rétt í þessu. Ríkjandi Evrópumeistarar Spánar unnu nauman tveggja marka sigur gegn Tékklandi, 28-26.

Spánverjar höfðu yfirhöndina í fyrri hálfleik og náðu fjögurra marka forskoti um miðjan hálfleikinn. Liðið hélt þeirri forystu að mestu fram að hléi, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 14-11, Spánverjum í vil.

Spánverjar náðu ekki að hrista Tékkana af sér í síðari hálfleik. Munurinn var tvö til þrjú mörk mest allan seinni hálfleikinn, og í tvígang náðu Tékkar að minnka muninn í eitt mark. Nær komust þeir þó ekki og Spánverjar unnu að lokum góðan tveggja marka sigur, 28-26.

Þá vann Serbía öruggan átta marka sigur er liðið mætti Úkraínu í C-riðli. Serbar tóku forystuna snemma og þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 17-11, Serbíu í vil.

Áfram héldu Serbarnir að þjarma að andstæðingum sínum í síðari hálfleik og náðu mest 12 marka forskoti þegar lítið var eftir. Úkraínumenn skoruðu þó seinustu fjögur mörk leiksins og löguðu stöðuna lítillega, en lokatölur urðu 31-23.

Að lokum unnu rússar tveggja marka sigur gegn Litháen, 29-27, og Slóvenía hafði betur gegn Norður-Makedóníu, 27-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×