Handbolti

Í sjokki yfir sóttvörnum á EM: „Hvernig getum við spilað?“

Sindri Sverrisson skrifar
Nikola Karabatic er mættur með Frökkum á enn eitt stórmótið.Hann á þrenn gullverðlaun af Evrópumótum, fern af heimsmeistaramótum og þrenn af Ólympiuleikum.
Nikola Karabatic er mættur með Frökkum á enn eitt stórmótið.Hann á þrenn gullverðlaun af Evrópumótum, fern af heimsmeistaramótum og þrenn af Ólympiuleikum. Getty/Hasan Bratic

Ein skærasta stjarna EM í handbolta og landsliðsþjálfari Serbíu eiga vart orð yfir skorti á sóttvörnum á mótinu.

Þátttökuþjóðirnar eru nú nýmættar til Ungverjalands og Slóvakíu til að taka þátt á EM sem hefst á morgun. Íslenska liðið ferðaðist til að mynda til Búdapest í gær.

Liðin hafa síðustu daga og vikur lagt mikið á sig til að forðast kórónuveirusmit en reglur EHF kveða á um að leikmenn þurfi að vera í einangrun í fimm daga eftir að smit greinist, og skila tveimur neikvæðum prófum, til að mega spila á EM.

Þannig hafa Frakkar til að mynda verið í sóttvarnabúbblu í aðdraganda EM, rétt eins og Íslendingar. Nikola Karabatic segir eitthvað allt annað í gangi á hóteli Frakka í Szeged í Ungverjalandi:

Umgangast hótelgesti sem huga ekki að sóttvörnum

„Við vorum furðu lostnir, eða bara í sjokki, yfir þeim aðstæðum sem boðið er upp á á mótinu,“ er haft eftir Karabatic í frönskum miðlum.

„Við fylgdum ströngum reglum til að forðast það að fá Covid og komum svo á hótel þar sem eru aðrir gestir sem ekki nota grímur. Við borðum á sama svæði og aðrir hótelgestir,“ sagði Karabatic.

Vincent Gérard, markvörður Frakka, tók í sama streng. „Þegar maður mætir á hótelið og sér fólk labba um í sundfötunum og fara í hótellaugina án þess að vera með grímu eða neitt, þá er það sjokk. Sóttvarnareglurnar hérna eru, svo ekki sé meira sagt, öðruvísi,“ sagði Gerard.

Philippe Bana, formaður handknattleikssambands Frakklands, segir að búið sé að leita til EHF vegna málsins og að úr því eigi að bæta í dag. Frakkar hefja keppni annað kvöld þegar þeir mæta Króötum í stórleik.

Serbar hafa glímt við fjölda kórónuveirusmita í aðdraganda EM. Toni Gerona, hinn spænski þjálfari Serbíu, harmar þær aðstæður sem boðið er upp á á EM. Segir hann algjöra ringulreið ríkja, liðin þurfi að umgangast aðra hótelgesti sem ekki séu með grímur, ekki séu tekin próf, og að þegar séu leikmenn farnir að smitast.

„Hvernig getum við spilað??“ spyr Gerona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×