Enn eru einhverjir eftir á sjúkrahúsinu en rúmlega tuttugu manns hafa verið sendir heim í sóttkví. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir í samtali við fréttastofu að staðan sé bagaleg. Sjúklingar og starfsmenn tóku hraðpróf í dag en niðurstöður úr PCR prófum liggja væntanlega fyrir í kvöld eða á morgun.
„Það eru ekki allir farnir heim en allir þeir sem gátu farið heim fóru heim, af því að allir þurfa að fara í sóttkví. Þannig að við setjum meðferðina á bið í einhverja daga og tökum svo upp þráðinn,“ segir Valgerður og bætir við að staðan sé slæm í ljósi eðlis starfseminnar.
Einhverjir sjúklinga hafa verið sendir heim með afvötnunarlyf en Valgerður segir að það hafi verið í undantekningartilvikum: „Það var bara gert með varkárni, við myndum ekki senda neinn heim í hættu,“ segir Valgerður og bætir við að sjúklingar og starfsmenn hafi almennt tekið fréttunum vel. Vonir séu bundnar við að hægt verði að halda starfseminni áfram gangandi.
„Það er ekkert gott við þetta, en allir sem eru að koma til okkar þeir eru að koma einhvers staðar frá og eru búinir að vera oft í mikilli neyslu lengi. En við þurfum bara að fresta afeitrun og fresta meðferð, eins skítt og það er,“ segir Valgerður.