Handbolti

Sveinn meiddist á hné og óvíst með þátttöku hans á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveinn Jóhannsson (lengst til vinstri) varð fyrir því óláni að meiðast á æfingu í morgun.
Sveinn Jóhannsson (lengst til vinstri) varð fyrir því óláni að meiðast á æfingu í morgun. vísir/Vilhelm

Línumaðurinn Sveinn Jóhannsson meiddist á hné á æfingu karlalandsliðsins í handbolta í morgun. Óvíst er með þátttöku hans á Evrópumótinu sem hefst í næstu viku.

RÚV greinir frá þessu. Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson segir að Sveinn fari í myndatöku á morgun.

„Því miður var Sveinn Jóhannsson að meiðast á æfingu áðan og það er ekki víst að hann. Við vitum ekki stöðuna á honum eins og hann er núna. Hann fer í myndatöku í fyrramálið og það var ansi leiðinlegt að það skyldi gerast. Það gæti orðið eitthvað út af því, við tökum bara ákvörðun um það þegar við erum búin að fá niðurstöðu í hans mál,“ sagði Guðmundur við RÚV.

Sveinn, sem leikur með SønderjyskE í Danmörku, er einn fjögurra línumanna í tuttugu manna EM-hópnum sem Guðmundur valdi ásamt Ými Erni Gíslasyni, Arnari Frey Arnarssyni og Elliða Snæ Viðarssyni. Einn línumaður til viðbótar, Heimir Óli Heimisson, var í stóra 35 manna EM-hópnum sem Guðmundur valdi.

Íslenska liðið mætir Litáen í tveimur vináttulandsleikjum á Ásvöllum, 7. og 9. janúar, áður en það heldur til Búdapest þar sem riðill þess á EM verður leikinn. Ísland er í riðli með Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×