Handbolti

Enn ófremdarástand í danska handboltanum vegna veirunnar

Sindri Sverrisson skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson verður væntanlega eini Íslendingurinn sem spilar í Danmörku í dag. Hann er svo á leið á EM í Ungverjalandi í janúar, sem einn þriggja markvarða íslenska landsliðsins.
Ágúst Elí Björgvinsson verður væntanlega eini Íslendingurinn sem spilar í Danmörku í dag. Hann er svo á leið á EM í Ungverjalandi í janúar, sem einn þriggja markvarða íslenska landsliðsins. EPA-EFE/Petr Josek

Kórónuveiran heldur áfram að hafa áhrif á leiki íslensku landsliðsmannanna í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Aðeins einn af sjö leikjum dagsins er enn á dagskrá.

Í síðustu umferð fyrir jól þurfti að fresta sex leikjum vegna kórónuveirusmita. Þá bárust fregnir af því að leikmenn GOG, sem landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson leikur með, hefðu áður spilað leik þrátt fyrir einkenni smits.

Reglur danska sambandsins kveða á um að fresta megi leikjum ef að minnsta kosti fimm leikmenn vantar í eitt og sama lið vegna veirunnar.

Frank Smith, mótastjóri danska handknattleikssambandsins, viðurkennir að það sé ansi snúið að koma fyrir leikjunum sem nú sé búið að fresta, en þeir færast væntanlega fram yfir EM sem hefst í janúar.

„Þetta er skelfilegt. Þetta er í samræmi við útbreiðsluna í samfélaginu og það verður ansi erfitt að púsla því saman hvenær leikirnir verða spilaðir. En það mun takast. Við eigum eftir umferð 30. desember sem maður fer að óttast um. Við verðum að bæta þetta upp á nýju ári,“ sagði Smith.

Fjögur Íslendingalið eru í dönsku úrvalsdeildinni. Aron Pálmarsson leikur með Álaborg, Ágúst Elí Björgvinsson með KIF Kolding, Sveinn Jóhannsson með SönderjyskE og Viktor Gísli með GOG.

Eini leikur dagsins sem enn er á dagskrá þegar þetta er skrifað er viðureign Kolding og Fredericia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×