Sjúklingurinn var fluttur á Landspítalann í Fossvogi eftir að hann greindist með afbrigðið. Fleiri hafa ekki greinst inni á deildinni enn sem komið er.
„En við bíðum bara efir niðurstöðum úr skimuninni sem ættu að koma einhvern tíma seinni partinn í dag,“ segir Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, í samtali við fréttastofu.
Ríkisútvarpið greindi fyrst frá því í morgun að deildinni hefði verið lokað.
Í samtali við fréttastofu í gær sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem sér um að raðgreina veiruna, að útlit væri fyrir að sjö hefðu greinst með nýja afbrigðið á Íslandi.
Þeir eru allir tengdir þeim sem greindist inni á lyflækningadeildinni og samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er afbrigðið einangrað við Akranes eins og er.
Íslensk erfðagreining hefur ákveðið að raðgreina veiruna nú daglega til að fylgjast betur með nýja afbrigðinu og því gæti komið í ljós síðar í dag að fleiri séu með á landinu heldur en þeir sjö sem tengjast Akranesi.