Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, um bólusetningabílinn svokallaða.
Boðaðar bólusetningar, það er að segja í örvunarskammt, fara fram í Laugardalshöll mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga en fimmtudaga og föstudaga er frjáls mæting fyrir óbólusetta, hálfbólusetta og þá sem ekki hafa komist í örvunarskammt á gefnum tíma.
Því keyrir bólusetningabílinn, sérútbúinn sjúkrabíll, um á fimmtudögum og föstudögum en föstudagurinn síðastliðni, 28. nóvember, var fyrsti heili dagurinn sem hann fór á milli.
Að sögn Ragnheiðar heimsótti bíllinn þá sex staði og gekk allt að óskum. Í bílnum er bæði hægt að fá bólusetningu og fræðslu um bólusetningar.
En hversu margir hafa þegið bólusetningu í bílnum?
„Þetta eru alveg nokkrir í hverri heimsókn,“ svarar Ragnheiður en segir ekki sérstaklega haldið utan um tölfræðina í bílnum.
Bílnum er ætlað að ná til óbólusettra en Ragnheiður segir umræðuna einnig hafa skilað sér í aukinni aðsókn í Laugardalshöll.
„Við höfum orðið vör við að þessi aukna umræða er að verða til þess að verktakar eru að mæta með starfsmenn í Höllina,“ segir Ragnheiður. Þar sé oftast um að ræða óbólusetta erlenda verkamenn.