Þetta staðfesti Hermann Hreiðarsson, nýr þjálfari ÍBV, í samtali við Fótbolta.net í dag.
„Það er leikmaður við vildum gjarnan fá í okkar raðir. Það kemur allt í ljós hvort það takist. Það er ekkert klárt fyrr en það er klárt,“ sagði Hermann.
Andri Rúnar kvaddi Ísland haustið 2017 eftir að hafa orðið markakóngur og jafnað markametið í úrvalsdeildinni með 19 mörkum fyrir Grindavík.
Hann fór til Helsingborg í Svíþjóð og varð markakóngur í sænsku 1. deildinni með 16 mörk, og komst með liðinu upp í úrvalsdeild, og var svo seldur til þýska stórliðsins Kaiserslautern sumarið 2019.
Andri náði hins vegar ekki að festa sig í sessi í liði Kaiserslautern og fór þaðan til Esbjerg í dönsku 1. deildina ári síðar, þar sem hann er á sínu öðru tímabili en hefur ekkert spilað síðan í ágúst.
Andri, sem er 31 árs, hóf ferilinn með BÍ/Bolungarvík en lék svo með Víkingi R. og Grindavík áður en hann fór í atvinnumennsku.