Duus Handverk er til húsa í Grófinni 2 til 4 í Reykjanesbæ í Keflavík þar sem mjög fjölbreytt úrval af handverki frá handverksfólki á svæðinu er á borðstólnum, allt fallegt og mismunandi handverk. Handverksfólkið skiptist á að vera á staðnum og taka á móti viðskiptavinum.
„Það eru mest megnis ferðamenn sem koma til okkar en okkur vantar svolítið að fá Íslendingana. Það eru margir sem halda að við séum bara með opið á Ljósanótt og svo fyrir jólin en við erum með opið allt árið um kring,“ segir Gerður Sigurðardóttir, talsmaður handverkshópsins.

Munir tengdir eldgosinu á Reykjanesi eru vinsælir á markaðnum eins og eldfjallalopapeysurnar.
„Já, það eru steinar, lopapeysurnar, myndir og málverk. Svo erum við að sjálfsögðu komin í jólaskap með fullt af fallegum jólavörum, sjón er sögu ríkari“, segir Gerður.

Gerður segir mjög gaman að taka þátt í markaðnum og vinna með handverksfólkinu á svæðinu.
„Þetta er bara mjög skemmtilegt enda frábær hópur af fólki, konur og karlar, sem taka þátt, ég vildi ekki vera án þess, þetta er góður félagsskapur.“

