Travis McMichael, Gregory McMichael og William Bryan hafa allir verið sakfelldir fyrir morðið á Arbery. Þeir eltu Arbery, þar sem hann var úti að skokka í Glynn County í Georgíu, og skutu hann til bana. Kviðdómurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að þremenningarnir hefðu gerst sekir um stórfellda líkamsárás og frelsissviptingu.
Þremenningarnir gætu allir staðið frammi fyrir lífstíðarfangelsi, en ekki liggur fyrir hvenær lengd refsinga verður ákveðin.
Sátu fyrir Arbery
Arbery var að skokka í gegnum úthverfi í Brunswick í Georgíu í febrúar í fyrra þegar feðgarnir Travis og Gregory McMichael veittu honum eftirför á pallbíl. Þeir báru fyrir sig að þeir hafi grunað Arbery um að hafa staðið að innbrotum í hverfinu og elt hann í því skyni að handtaka hann borgaralega.
William Bryan slóst í för með feðgun og veittu mennirnir Arbery eftirför um nokkurt skeið. Þá reyndu þeir einnig að aka í veg fyrir hann. Að endingu sátu þeir fyrir Arbery. Travis fór út úr bíl sínum, vopnaður haglabyssu og kom til átaka milli hans og Arbery. Travis skaut Arbery þrisvar sinnum og viðurkenndi fyrir dómi að Arbery hefði ekki ógnað sér á nokkurn hátt.
Ekki handteknir fyrr en myndbandið var birt
Mennirnir þrír voru ekki handteknir fyrr en tíu vikum eftir að Arbery var skotinn til bana. Gregory McMichael, faðir Travis, starfaði áður hjá lögreglunni í bænum og sagði hann lögregluþjónum að Arbery hefði líkst innbrotsþjófi, sem hafði náðst á myndavél í hverfi þeirra feðga. Þeir hafi því ákveðið að elta hann og skotið hann í sjálfsvörn.
Saksóknari í ríkinu taldi ekki ástæðu til að aðhafast frkear og féllst á að um sjálfsvörn verið að ræða. Þannig væri ekki tilefni til handtöku og léku feðgarnir því lausum hala í tíu vikur eftir morðið.
Þegar myndbandið hafði náð dreifingu á samfélagsmiðlum skipaði Brian Kemp, ríkisstjóri Georgíu, Georgia Buerau of Investigation, æðsta löggæsluembætti ríkisins, að taka yfir rannsókn á dauða Arbery. Feðgarnir voru þá handteknir nokkrum klukkustundum síðar.
Fréttin hefur verið uppfærð.