22 grænlensk börn voru þá tekin af fjölskyldum sínum og send til Danmerkur til að aðlagast dönsku samfélagi. Þeim var svo snúið aftur til Grænlands og var hugsunin að gera þau að einhvers konar dönskumælandi „elítu“, en þau voru þá látin búa á barnaheimilum í höfuðborginni Nuuk.
Tilraunin átti eftir að hafa miklar afleiðingar fyrir börnin, þar sem um helmingur þeirra átti eftir að glíma við mikil andleg veikindi og áfengisfíkn. Mörg þeirra áttu eftir að deyja langt fyrir aldur fram og þá átti einungis helmingur þeirra eftir að mennta sig.
Danskir fjölmiðlar segja nú frá því að sex þessara barna, þau sem enn eru á lífi, hafi nú krafið danska ríkið um skaðabætur vegna tilraunarinnar.
„Þau misstu fjölskyldu sína, tungumálið sitt, menningu og þá tilfinningu að tilheyra. Þetta var sömuleiðis brot á rétti þeirra til einka- og fjölskyldulífs samkvæmt áttundu grein mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir lögmaður þeirra, Mads Krøger Pramming, í samtali við Politiken.
Hópurinn fer fram á 250 þúsund danskra króna í skaðabætur, um fimm milljónir íslenskra króna, til hvers og eins, vilji danska ríkið að málið fari ekki fyrir dómstóla. Hefur hópurinn veitt danska ríkinu fjórtán daga frest til að bregðast við.
Danska ríkisstjórnin og forsætisráðherrann Mette Frederiksen bað grænlensku „tilraunabörnin“ opinberlega afsökunar á málinu á síðasta ári.
„Við getum ekki breytt hinu liðna. En við getum axlað ábyrgð og beðið þá afsökunar sem við brugðumst,“ sagði Frederiksen þá.