Innlent

Býst við minnis­blaði frá Þór­ólfi um innan­lands­að­gerðir í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. Vísir/vilhelm

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra býst við því að fá minnisblað frá sóttvarnalækni um aðgerðir innanlands í dag. Þá reiknar hún með því að ræddur verði möguleiki á hertum aðgerðum innanlands á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið.

Þetta staðfestir Svandís í samskiptum við fréttastofu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samskiptum við fréttastofu nú eftir hádegi að það væri „aldrei að vita“ nema hann byrjaði að huga að minnisblaði um hertar innanlandsaðgerðir fyrir ríkisstjórnarfund á morgun.

144 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Aðeins tvisvar hafa fleiri greinst á einum degi frá upphafi faraldursins og þá hafa aldrei fleiri greinst utan sóttkvíar en í gær, eða 104. 

Þórólfur sagði í samtali við fréttastofu í morgun að hann hefði áhyggjur af stöðunni. Hann íhugaði nú leiðir til að bregðast við henni.

„Ég held það þurfi allir að hugsa það hvað þurfi að gera til að stoppa þetta. Og við vitum hvað þarf til. Og við þurfum að taka höndum saman og hugsa það mjög vel og það er það sem ég hef verið að ræða við stjórnvöld,“ sagði Þórólfur í morgun, inntur eftir því hvort kæmi til greina að leggja til hertar aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×