Sebastian Alexandersson er á sínu fyrsta tímabili með HK eftir að hafa þjálfað Framara í fyrra.
HK-liðið hefur verið að standa í sínum mótherjum í flestum leikjum en ekkert stig er samt enn komið í hús í Kórnum.
HK tapaði síðasta leik með tveimur mörkum á móti Aftureldingu en liðið hafði einnig tapað með tveimur mörkum á móti Fram og með þremur mörkum á móti KA í spennandi leikjum.
Sebastian Alexandersson var ekkert bjartsýnn á það eftir tapið á móti Aftureldingu að HK-liðið myndi loks ná í sigur í leik númer sex.
„Afturelding lenti í því og það lenda allir í því að eiga slæma kafla. Við eins og önnur góð lið hættum ekki. Við höldum bara áfram og við erum að nálgast og nálgast og nálgast. Hvenær við náðum sigrinum? Ég veit það ekki en hann mun koma. Ég efast stórlega um að hann komi á föstudaginn en við munum samt reyna,“ sagði Sebastian Alexandersson eftir leikinn.
Það fylgir sögunni að næsti leikur HK-liðsins er í kvöld og á móti Haukum. Haukaliðið er í fimmta sæti deildarinnar með þrjá sigra og eitt jafntefli í fimm leikjum.
Það má sjá Sebastian í viðtalinu hér fyrir neðan.
Leikur Hauka og HK hefst klukkan 20.00 á Ásvöllum. Tveir leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport í kvöld. Leikur Fram og ÍBV verður sýndur á Stöð 2 Sport klukkan 18.00 og leikur FH og KA verður sýndur á Stöð 2 Sport 4 klukkan 19.30. Seinni bylgjan gerir síðan upp alla umferðina klukkan 21.10 annað kvöld.