Endurtalning fór fram í Norðvesturkjördæmi í dag þar sem nokkur atkvæði hliðruðust til milli nokkurra flokka, sem varð til þess að jöfnunarsæti í öllum kjördæmum nema einu fóru á flakk.
Ef endurtalning í Suðurkjördæmi leiddi það í ljós að VG væri með fleiri atkvæði en Miðflokkur myndi það hafa svipaðar afleiðingar í för með sér, því kjördæmakjörinn þingmaður Miðflokksins dytti þá út og yrði flokkurinn þá að fá annan þingmann inn sem jöfnunarmann. Í hvaða kjördæmi það yrði og á hvaða önnur jöfnunarsæti það hefði áhrif er þá óljóst.
Heimildir fréttastofu herma þá að Sjálfstæðismenn skoði möguleikann á að taka undir kröfu VG um endurtalningu. Þetta vildi Ingvar Pétur Guðbjörnsson, umboðsmaður flokksins, þó ekki staðfesta í samtali við fréttastofu. Hann sagði að engin formleg beiðni hefði enn verið lögð inn frá flokknum og sagðist ekki vilja tjá sig meira um málið að svo stöddu.
Mikilvægt fyrir lýðræðið
Álfheiður Eymarsdóttir, oddviti Pírata í kjördæminu, sem nær ekki inn á þing lýsti því yfir á Facebook í kvöld að Píratar tækju undir kröfu um endurtalningu.

„Þetta skiptir engu máli fyrir niðurstöður Pírata í kjördæminu. Við virðum lýðræðið og teljum VG í fullum lýðræðislegum rétti til að fá endurtalningu í ljósi stöðunnar. Við hefðum staðið með hvaða framboði sem er í sömu stöðu,“ skrifar hún á Facebook.
Ef Sjálfstæðismenn færu fram á það sama lægi líklega svipaður lýðræðisvilji að baki en það verður ekki séð í fljótu bragði að flokkurinn gæti hagnast nokkuð á endurtalningu atkvæða í kjördæminu.
Álfheiður gagnrýnir þá að yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi hafi sjálf ákveðið að fara í „úrtaks- og gæðakönnun“ á verkferlum sínum í dag; farið yfir allar talningar og tekið tilviljanakennt úrtak bæðu utankjörfundar og kjörfundaratkvæðum í það ferli, eins og formaður yfirkjörstjórnarinnar lýsti yfir í dag.
„Enn fremur teljum við "gæðatékk" ekki samræmast kosningalögum, hvað þá gæðatékk þar sem umboðsmenn eru ekki látnir vita eða eru viðstaddir,“ skrifar hún.
Hún segir að Píratar hafi komið þessum athugasemdum á framfæri við yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis og beðið um skýringar á því hvernig atkvæða var gætt frá því talningu lauk í morgun.