Handbolti

Guðmundur snýr aftur til Danmerkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur stýrt íslenska landsliðinu frá 2018.
Guðmundur Guðmundsson hefur stýrt íslenska landsliðinu frá 2018. vísir/bára

Guðmundur Guðmundsson tekur við danska úrvalsdeildarliðinu Fredericia næsta sumar. Hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Fredericia.

Guðmundur og framkvæmdastjóri Fredericia, Thomas Renneberg-Larsen, staðfesta þetta í samtali við TV 2. Guðmundur tekur við Fredericia af Jesper Houmark eftir þetta tímabil. 

Melsungen greindi í gær frá því að Guðmundi hefði verið sagt upp störfum hjá félaginu. Hann tók við Melsungen í febrúar 2020.

„Ég hlakka mikið til. Þetta er spennandi verkefni sem þeir eru að vinna að. Ég hef alltaf notið mín í Danmörku og er mjög spenntur,“ sagði Guðmundur.

Hann þjálfaði GOG á árunum 2009-10 og var svo þjálfari danska landsliðsins 2014-17. Undir hans stjórn varð Danmörk Ólympíumeistari 2016.

Guðmundur hefur verið í viðræðum við Fredericia í þrjár vikur og fyrir tveimur vikum tilkynnti hann stjórn Melsungen að hann vildi snúa aftur til Danmerkur.

Guðmundur er einnig þjálfari íslenska landsliðsins en í viðtalinu við TV 2 vildi hann ekki tjá sig um hvort hann myndi sinna því starfi samhliða því að þjálfa Fredericia.

„Ég vil ekki tjá mig um það á þessum tíma. Þetta er ekki rétti tíminn,“ sagði Guðmundur.

Forráðamenn Fredericia eru með háleit markmið og ætla að keppa um titla 2025. Fredericia er núna í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×