Innlent

Faðir barnsins segir Jakob Frímann aðeins hafa talið sig vera að hjálpa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Faðirinn sagði í samtali við Vísi að Jakob hefði reynst barninu afar vel.
Faðirinn sagði í samtali við Vísi að Jakob hefði reynst barninu afar vel.

Faðir barns segir að Jakob Frímann Magnússon, tónlistar- og athafnamaður, hafi ekki vitað betur en hann væri að greiða fyrir málum þegar hann reit utanríkisráðuneytinu bréf og óskaði eftir liprunarbréfi til að barnið kæmist utan til föður síns.

Þegar Jakob Frímann sendi erindið var kórónuveirufaraldurinn að breiðast út um heimsbyggðina og ríki farin að takmarka ferðir fólks milli landa.

Vísir greindi frá því í morgun að utanríkisráðuneytið hefði afturkallað liprunarbréfið þegar í ljós kom að móðirinn hefði ekki gefið samþykki fyrir því að barnið ferðaðist utan.

Þetta segir faðirinn ekki rétt; móðirin hefði farið fram og til baka með samþykki sitt og Jakob Frímann ekki vitað betur en að hún hefði samþykkt utanferðina þegar hann ritaði bréf sitt til ráðuneytisins.

Það virðist vera óumdeilt að móðirinn hafði gefið samþykki fyrir því að barnið færi til föður síns í apríl en utanferðin sem minnst er á í erindi Jakobs átti að eiga sér stað 19. mars.

Að sögn föðursins kom þó aldrei til þess og segir hann rangt að lögregla hafi hindrað utanför barnsins 18. mars. Lögregla hafi þvert á móti farið með barnið til föðurbróður síns og faðirinn komið til Íslands 19. mars.

Vísir hefur ekkert undir höndum til að sanna það hvort móðirin hafði eða hafði ekki veitt heimild til að barnið færi utan 19. mars en samskipti lögmanna benda til þess að hún hafi seinna sagst myndu láta barnið ráða, þrátt fyrir að hún væri á móti því að það færi utan.

„Jakobi gekk gott eitt til,“ segir faðir barnsins. „Hann hefur verið barninu ótrúlega góður vinur og hreinlega bjargað lífi þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×