Erin McLeod var í leikmannahópi kanadíska landsliðsins sem vann knattspyrnukeppni kvenna á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn í sögu landsliðs þjóðarinnar.
McLeod er kærasta íslensku landsliðskonunnar Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur en þær voru sameinaðar á ný þegar Erin kom heim til Flórída þar sem þær spila bæði með Orlando Pride í bandarísku deildinni.
McLeod spilaði ekki mínútu á leikunum en var ónotaður varamaður í einum leik sem þýddi að hún átti rétt á að fá gullið eftir að Kanada vann Svíþjóð í vítakeppni í úrslitaleiknum.
Gunnhildur Yrsa fékk Ólympíugullið um hálsinn eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. „Allt það gull sem mig gæti nokkurn tímann dreymt um,“ skrifaði Erin við myndina.
Erin McLeod lék sinn fyrsta landsleik árið 2002 en hún hefur alls leikið 118 landsleiki fyrir Kanada frá þeim tíma. Hún hefur spilað 19 leiki á stórmótum þar af níu þeirra á Ólympíuleikunum 2008 og 2012. Hún missti af leikunum 2016 eftir að hafa slitið krossband í mars sama ár.
Gunnhildur Yrsa hefur spilað 80 landsleiki fyrir Íslands hönd og var fyrirliði liðsins í fjarveru Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í vor.