Fótbolti

Segist vera í sömu stöðu og Agüero: Kom bara vegna Ancelotti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rodríguez gæti verið á förum.
Rodríguez gæti verið á förum. Tony McArdle/Everton FC via Getty Images

Kólumbíumaðurinn James Rodríguez, sóknartengiliður Everton á Englandi, segist óviss um framtíð sína hjá félaginu. Hann segist aðeins hafa komið til liðsins vegna Ítalans Carlo Ancelotti, en sá hvarf á braut í sumar.

Rodríguez kom frítt til Everton frá Real Madrid síðasta sumar, og komu skiptin þónokkuð á óvart á miðað við stöðu hans innan fótboltaheimsins. Carlo Ancelotti var þá stjóri Everton og sannfærði Rodríguez um að koma til Liverpool-borgar en þeir unnu áður saman hjá Real Madrid.

Ancelotti er hins vegar núna farinn hina leiðina, hann hætti hjá Everton til að taka við Real Madrid í annað skipti í sumar. Rafael Benítez tók við af þeim ítalska og virðist hafa lítil not fyrir Kólumbíumanninn, og vill losa um launakostnað með því að selja hann. Rodríguez er sagður þéna 200 þúsund pund vikulega hjá félaginu.

Rodríguez líkir stöðu sinni hjá Everton við þá hjá Sergio Aguero hjá Barcelona. Agüero samdi við félagið til að spila með góðvini sínum, Lionel Messi, en Messi er nú á förum.

„Kun Agüero fór til Barcelona, og nú er Messi á förum, þeir eru góðir vinir,“ segir Rodríguez.

„Þetta eru hlutir sem fótboltinn hefur. Það sama gerðist við mig. Ég fer til Everton, í raun bara vegna Ancelotti var þar, og nú sérðu að Carlo er farinn.“

„Ég veit ekki hvað mun gerast. Í fótboltanum, og í lífinu, vitum við ekkert. Sjáum bara til hvað gerist.“ segir Rodríguez.

Rodríguez hefur verið orðaður við Sevilla á Spáni, AC Milan á Ítalíu og Porto í Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×