„Þetta er alveg endurnærandi fyrir líkama og sál, harmonikkan er svo skemmtilegt hljóðfæri. Afi minn spilaði á nikku og bróðir minn spilar og svo sogast maður að hljóðfærinu. Það er svolítið mikið að gera, þú ert með hægri og vinstri höndina og belginn,“ segir Elísabet Halldóra Einarsdóttir, formaður Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, sem er ein af spilurum helgarinnar á Borg.
Til stóð að vera með harmonikkuböll í félagsheimilinu á Borg um helgina en hætt var við það en í staðinn er spilað á tjaldsvæðinu. Hugað er vel að öllum sóttvörnum.

Elísabet vill endilega koma þessari vísu á framfæri, sem Friðrik Steingrímsson í Mývatnssveit samdi í tilefni af heimsókn fréttamannsins á Borg.
Vel sér kemur eflaust enn
ykkar þykki skrápur
þegar fer að mynda menn
Magnús fréttasnápur.
Og að lokum þetta frá Elísabetu.
„Njótið lífsins, dansið, syngið og spilið eins og þið getið.“
