Fótbolti

Brynjólfur skoraði þrennu í bikarsigri Kristiansund

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson skoraði þrennu í dag.
Brynjólfur Andersen Willumsson skoraði þrennu í dag. PETER ZADOR/DEFODI IMAGES VIA GETTY IMAGE

Brynjólfur Andersen Willumsson var á skotskónum þegar Kristiansund heimsótti Volda í norska bikarnum í fótbolta. Lokatölur 4-2, Kristiansund í vil, eftir framlengingu.

Knut Myklebust, fyrrum leikmaður Hattar/Hugins, kom heimamönnum yfir eftir tæplega stundarfjórðung. Hann var svo aftur á ferðinni stuttu fyrir hálfleik og staðan því 2-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Brynjólfur Andersen minnkaði muninn á 61. mínútu, áður en Amidou Diop jafnaði metin fimm mínútum fyrir leikslok.

Hvorugu liðinu tókst að skora sigurmarkið fyrir leikslok og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Brynjólfur kom gestunum yfir eftir 110 mínútna leik, og hann fullkomnaði svo þrennu sína og gulltryggði sigur Kristiansund þegar rúm mínúta var eftir af framlengingunni.

Þetta voru fyrstu mörk Brynjólfs fyrir Kristiansun, en hann hefur spilað 12 leiki fyrir félagið í norsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×