Fótbolti

Sagður á leið til Tyrklands

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar Alex í leiknum við Manchester City í deildabikarnum.
Rúnar Alex í leiknum við Manchester City í deildabikarnum. Getty/Nick Potts

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er sagður á leið frá enska liðinu Arsenal til tyrkneska félagsins Altay Spor. Óvíst sé hvort um lánssamning eða kaup á Rúnari sé að ræða.

Tyrkneski blaðamaðurinn Ege Engin greindi frá þessu á Twitter í dag og tók Charles Watts, sem skrifar um Arsenal fyrir Goal.com, í sama streng.

Rúnar Alex gekk í raðir Arsenal frá franska félaginu Dijon síðasta haust fyrir tilstilli markmannsþjálfarans Iñaki Caña sem vann áður með Rúnari hjá danska félaginu Nordsjælland þar sem Rúnar lék frá 2014 til 2018. Hann skrifaði undir fjögurra ára samning við Arsenal.

Rúnar Alex lék sex leiki fyrir Arsenal á leiktíðinni, þar af fjóra í Evrópudeildinni. Athygli vakti að hann afvirkjaði Twitter-aðgang sinn eftir aðkast stuðningsmanna í kjölfar þess að hafa gert mistök í tapi fyrir Manchester City í deildabikarleik í vetur.

Rúnar spilaði þá einn deildarleik þegar hann kom inn á sem varamaður í 2-1 tapi fyrir Wolves í febrúar, í kjölfar þess að Bernd Leno, aðalmarkverði Arsenal, hafði verið vísað af velli.

Óvissa hefur ríkt um framtíð hans í ensku höfuðborginni og stefnir í að Tyrkland sé hans næsti áfangastaður. Altay Spor eru nýliðar í efstu deild í Tyrklandi eftir að hafa komist upp úr B-deildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×