Fótbolti

Emil og félagar unnu toppliðið - Tap hjá Adam

Valur Páll Eiríksson skrifar
Emil Pálsson spilaði síðustu 20 mínúturnar í sigri Sarpsborgar.
Emil Pálsson spilaði síðustu 20 mínúturnar í sigri Sarpsborgar. mynd/sarpsborg08.no

Emil Pálsson og liðsfélagar hans í Sarpsborg unnu frækinn 1-0 sigur á Molde í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Þrír Íslendingar voru í eldlínunni í Skandinavíu.

Molde hafði unnið fimm leiki í röð í deildinni fyrir leik sinn við Sarpsborg í dag og voru með tveggja stiga forskot á ríkjandi meistara Bödo/Glimt auk þess að eiga tvo leiki inni. Sarpsborg hafði aftur á móti tapað tveimur leikjum í röð.

Emil Pálsson byrjaði á varamannabekk Sarpsborgar en kom inn á sem varamaður í stöðunni 0-0 á 68. mínútu. Aðeins sex mínútum síðar skoraði Steffen Skålevik það sem reyndist eina mark leiksins.

Sarpsborg fer upp í tíunda sæti deildarinnar með 12 stig, líkt og Sandefjord, lið Viðars Ara Jónssonar en hann skoraði og lagði upp í 2-0 sigri á Stabæk fyrr í dag.

Adam Örn Arnarson byrjaði í hægri bakverði Tromsö sem þurfti að þola 3-0 tap fyrir Haugesund. Adam var skipt af velli í stöðunni 2-0 á 72. mínútu. Tromsö er með níu stig í 13. sæti, tveimur stigum frá umspilssæti um fall og þremur frá fallsæti.

Hólmar Örn Eyjólfsson sat allan tímann á varamannabekk Rosenborg sem gerði 2-2 jafntefli við Odd Grenland þar sem andstæðingarnir jöfnuðu undir lok leiks. Rosenborg er með 16 stig í 6. sæti deildarinnar, þremur stigum frá Evrópusæti.

Í Svíþjóð spilaði Jón Guðni Fjóluson allan leikinn fyrir Hammarby sem gerði svekkjandi 1-1 jafntefli við Halmstad þar sem þeir síðarnefndu jöfnuðu leikinn í uppbótartíma. Hammarby er með 12 stig í áttunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×