Ný Landakotsskýrsla landlæknis var birt í gær en embættið komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ófullkomin hólfaskipting á Landakoti hafi verið helsti áhrifaþáttur þess að hópsýkingin hafi orðið eins alvarleg og raun ber vitni. Þá hafi aðgerðastjórn verið ábótavant í upphafi atburðarásarinnar. Í yfirlýsingu frá Landspítalanum í dag segist hann í megindráttum sammála niðurstöðu Landlæknis.
„Þetta er auðvitað hörmulegt mál og okkar starfsfólk er miður sín yfir þessu. Þarna urðu mörg andlát eins og komð hefur fram og það er auðvitað sérstaklega erfitt þegar fólk deyr við þessar aðstæður, það er einangrun í gangi og samskipti öll eru erfið,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum.
Hólfunin afleiðing af húsnæðinu
Hann segir að umbætur hafi þegar verið gerðar í samræmi við ábendingar landlæknis. Fjölbýlum á Landakoti hafi verið fækkað og loftræstikerfi hafi verið komið fyrir. Verið sé að styrkja sýkingavarnir og efla mönnun.
„Þarna er um að ræða algörlega úrelt og gamalt húsnæði og auðvitað er það sorglegt fyrir okkur sem samfélag að hlúa ekki betur að okkar elsta fólki heldur en þetta, þannig að það tel ég vera mjög stórt mál. Hólfunin er því miður svolítil afleiðing af húsnæðinu.“
Þá sé verið að skoða samstarf farsóttarnefndar og viðbragðsstjórnar spítalans.
„Og hvað varðar stjórnunarþáttinn þá eru þar nokkur atriði sem við tökum mjög alvarlega og höfum verið að skoða, samstarfið og stjórnunin gekk að mörgu leyti vel en auðvitað er alltaf eitthvað sem þarf að laga.“
Teljið þið ykkur geta tryggt að svona komi ekki fyrir aftur?
„Það er aldrei hægt að tryggja hluti hundrað prósent í heilbrigðisþjónustu, það er bara eðli heilbrigðisþjónustu. Markmið okkar er að stefna alltaf á hundrað prósent og stefna á núll alvarleg atvik.“