Innlent

Þurftu að slökkva á annarri túrbínu Reykjanesvirkjunar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
HS Orka.
HS Orka.

Starfsmenn HS Orku þurftu að grípa til þess ráðs á mánudag að slökkva á annarri af tveimur túrbínum Reykjanesvirkjunar sökum bilunar.

Túrbínurnar tvær framleiða samanlagt 100 Mw af raforku en óvæntur titringur í vélbúnaði annarar þeirra varð til þess að ákveðið var að slökkva á henni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. 

Heimildir blaðsins herma að enn liggi ekki fyrir hvað orsakaði bilunina en sérfræðingar HS Orku telji að túrbínublöð hafi skemmst eða losnað. 

Í blaðinu segir einnig að sé það raunin verði um tveggja til þriggja vikna stöðvun að ræða, en reynist bilunin viðameiri gæti hún orðið enn lengri. 

Þá segir að ljóst sé að tjónið sé verulegt fyrir fyrirtækið en að fyrst um sinn hið minnsta muni bilunin ekki hafa áhrif á raforkumarkaðinn í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×