Fótbolti

Crystal Palace snéri taflinu við gegn Aston Villa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Christian Benteke fagnar marki sínu í dag ásamt Tyrick Mitchell.
Christian Benteke fagnar marki sínu í dag ásamt Tyrick Mitchell. Mike Hewitt/Getty Images

Crystal Palace vann í dag góðan 3-2 sigur gegn Aston Villa. Aston Villa tók forystuna tvívegis í leiknum, en ólseigir Crystal Palace menn skoruðu sigurmarkið þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka.

John McGinn kom gestunum yfir eftir 18 mínútna leik áður en Christian Benteke jafnaði metin á 32. mínútu eftir stoðsendingu frá Tyrick Mitchell.

Staðan var ekki jöfn lengi, en Anwar El-Ghazi kom gestunum aftur yfir tveim mínútum síðar eftir undirbúning Ollie Watkins og Aston Villa því með 2-1 forystu þegar flautað var til hálfleiks.

Liðsmenn Crystal Palace mættu virkilega ákveðnir til leiks í seinni hálfleik ogsettu mikla pressu á gestina.

Það skilaði sér loksins á 75. mínútu þegar Wilfried Zaha jafnaði metin eftir fallega stungusendingu frá Eberechi Eze.

Tyrick Mitchell tryggði svo sigur heimamanna með sínu fyrsta marki á ferlinum. Boltinn barst þá til hans eftir slappa fyrirgjöf Eberechi Eze og Mitchell notaði öxlina til að koma boltanum yfir línuna.

Crystal Palace lyftir sér upp í 13. sæti deildarinnar með sigrinum, en Aston Villa er enn 11. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×