Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV og sagt að ábendingum til Geðhjálpar um misbrest í þjónustu og aðbúnaði fólks á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans hafi fjölgað eftir umfjöllun um vistheimilið Arnarholt. Tók Geðhjálp saman greinargerð byggða á frásögnunum í samvinnu við minnst átta fyrrverandi og núverandi starfsmenn á deildunum tveimur og sendi landlæknisembættinu. Báðar deildirnar eru staðsettar á Kleppi og eru sjúklingar sem þar dvelja ekki frjálsir ferða sinna.
Læstir inni svo dögum skiptir
Landlæknisembættið hefur farið í vettvangsheimsóknir vegna málsins og hefur Landspítalinn tekið viðtöl við fjölda starfsmanna. Að mati Geðhjálpar geta mörg þeirra atvika sem lýst er í greinargerð samtakanna varðað við lög, meðal annars lög um réttindi sjúklinga og lögræðislög þar sem fjallað er um þvingaða lyfjagjöf.
Þá kemur fram í frétt RÚV að starfsmenn lýsi að því er virðist ítrekuðum brotum á réttindum sjúklinga sem séu beittir þvingunum og refsingum sem brjóti gegn ákvæði lögræðislaga um þvingaða meðferð.
Segir í lýsingunum að sjúklingar hafi verið læstir á gangavist, nauðungarsprautaðir og eftir atvikum læstir inni á öryggisherbergi svo dögum skiptir ef þeir brutu reglur deildanna.