Byrjað var að rífa niður bragganna í dag en þeir hafa lengi verið áberandi kennileiti á horni Tryggvabrautar og Hvannavalla á Akureyri, ekki fjarri verslunarmiðstöðinni Glerártorgi.
Greint er frá þessu á fréttamiðlinum Akureyri.net en braggarnir voru hluti af Delta Camp-búðum breska hersins sem reistar voru árið 1941 þegar umsvif hersins voru talsverð í Eyjafirði.

Braggarnir standa nú á lóð Festar en smásölufyrirtækið hefur stefnt að því að opna Krónuverslun á Akureyri frá árinu 2016. Nokkuð er síðan umrædd lóð varð fyrir valinu og stendur nú til að opna verslunina haustið 2022.
Braggarnir eru nú í eigu GV grafa. Guðmundur V. Gunnarsson, annar eigandi fyrirtækisins, segir að nánast allt úr bröggunum tveimur og samliggjandi vörugeymslu verði nýtt, þar á meðal stálgrindur og þakefni. Þá stefnir hann að því að endurreisa braggana og nýta undir starfsemi félagsins.
Vörugeymslan verði brotin niður og sökklar undir bröggunum, en allt það efni verði til að mynda mulið og notað sem uppfyllingarefni.
Hræddur um að þeir yrðu sendir í brotajárn
„Ég er búinn að bíða í mörg eftir því að braggarnir yrðu falir!“ sagði Sigurður bóndi á Steinsstöðum við Akureyri.net í morgun.
„Mig langaði dálítið í þá en var þó aðallega hræddur um að þeir yrðu rifnir og sendir í brotajárn. Ég gat ekki hugsað mér það nú á tímum, þegar menn vilja helst endurnýta allt. Bæði er þetta úrvals efni og svo auðvitað hluti af sögunni.“

Niðurstaðan var sú að GV gröfur fá bragganna en Sigurður fær að nýta allt sem hægt er úr vörugeymslunni. Hefur hann meðal annars áhuga á að nota stálgrindina til að reisa fjós en hann ræktar nautgripi til kjötframleiðslu á bænum Steinsstöðum II í Öxnadal ásamt eiginkonu sinni Ásrúnu Árnadóttur.
Talið er að braggarnir á horni Tryggvabrautar og Hvannavalla hafi verið minnst sex talsins þegar breski herinn var með viðveru á svæðinu. Þeir tveir síðustu, sem nú er verið að taka niður, voru lengi hluti húsnæðis byggingavörudeildar KEA.