„Það er mikilvægt að ný kynslóð hasli sér völl og taki forystu í þeim verkefnum sem framundan eru. Þess vegna vil ég leiða framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og óska eftir fyrsta sætinu í prófkjörinu þann 29. maí næstkomandi,“ segir Vilhjálmur í færslu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann greinir frá framboði sínu.
Bæði Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson voru fyrir ofan Vilhjálm á lista flokksins í síðustu alþingiskosningum en Vilhjálmur er 9. þingmaður Suðurkjördæmis og síðasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu til að ná kjöri fyrir flokkinn í síðustu alþingiskosningum.
„Ég man hvernig mér leið þegar ég náði fyrst kjöri á Alþingi, þá tæplega þrítugur að aldri. Mér fannst það mikill heiður að vera treyst fyrir því að starfa í ykkar þágu. Það hefur ekkert breyst. Á þeim átta árum sem liðin eru síðan hefur reynslan hins vegar þroskað mig, þekkingin aukist og hæfnin til að vinna með ólíku fólki sömuleiðis,“ segir Vilhjálmur ennfremur í færslunni sem sjá má í heild sinni hér að neðan.