Innlent

Ís­lendingar gífur­lega gi­stiglaðir innan­lands í fyrra

Heimir Már Pétursson skrifar

Gistinóttum Íslendinga á hótelum á landsbyggðinni fjölgaði margfallt á síðasta ári miðað við árið þar á undan. Fleiri Íslendingar bóka hótel fyrr á þessu ári en í fyrra.

Þegar Íslendingum varð ljóst að þeir kæmust ekki mikið til útlanda síðasta sumar hópuðust þeir í ferðalög um landið. Hótel- og veitingastaðaeigendur víðs vegar um land buðu margir sérstök kjör og stjórnvöld gáfu landsmönnum ferðagjöf.

heimild turisti.is

Ferðagleði Íslendinga dreifðist þó misjafnlega milli landshluta. Því gistinóttum þeirra á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði aðeins um átta þúsund og þeim fækkaði um tvö þúsund á Suðurnesjum.

Samkvæmt samantekt ferðasíðunnar turisti.is fjölgaði gistinóttum hins vegar gífurlega annars staðar á landinu. Úr tæplega átján þúsund í ríflega 52 þúsund á Vesturlandi og Vestfjörðum og úr rúmlega sautján þúsund í ríflega 82 þúsund á Norðurlandi.

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Fosshótela.Vísir/Egill

Gríðarlegt stökk varð á Austurlandi þar sem gistinóttum fjölgaði úr 4.700 í rétt rúmlega 29 þúsund og á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum Íslendinga í sumarmánuðunum þremur úr rétt rúmlega 27 þúsund í 83 þúsund frá sömu mánuðum árið 2019.

Margir áttu erfitt með að finna gistingu í fyrra sumar þegar menn ruku fyrirvaralítið út á land og ætluðu að láta slag standa með gistinguna. Nú eru hins vegar vísbendingar um að fleiri ætli að hafa vaðið fyrir neðan sig en þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×