Erlent

Aðgerðum aflétt víðs vegar um heiminn í dag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessi ítölsku hjón nýttu tækifærið og lásu fréttir dagsins á bekk í Mílanó.
Þessi ítölsku hjón nýttu tækifærið og lásu fréttir dagsins á bekk í Mílanó. EPA/Andrea Fasani

Fleiri ríki en Ísland slökuðu á aðgerðum sínum gegn kórónuveirunni í dag. Jafnt á Þýskalandi sem á Indlandi voru verslanir, veitingastaðir og ýmislegt annað opnað á ný.

Þessir íbúar Allahabad á Indlandi biðu í röð fyrir utan áfengisverslun sem loksins mátti opna í dag. Svipaða sögu var að segja frá Búlgaríu þar sem þessir veitingamenn voru í óða önn við að gera sig tilbúna til að opna. Á Ítalíu og Grikklandi, sem og í Þýskalandi, Belgíu, Serbíu, Króatíu, Kósóvó og víðar var sömuleiðis slakað á aðgerðum í dag.

En þótt það sé hægt að opna á ný er ekki þar með sagt að það sé allt komið aftur í eðlilegt horf, eins og spænski naglafræðingurinn Susana Puebla lýsir:

„Við afgreiðum nú viðskiptavini en þetta er ekki eins og áður. Þetta er flóknara núna. Við þurfum að leggja ríka áherslu á að sótthreinsa en þetta er samt gleðidagur.“

Ástæðan fyrir því að sífellt fleiri ríki slaka nú á aðgerðum sínum er alla jafna sú að það hefur hægst á útbreiðslu kórónuveirunnar, þótt virk tilfelli séu víða enn fjölmörg. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur hvatt ríki til að hafa varann á og beðið ríki um að vera tilbúin til þess að herða aðgerðir á ný ef þörf krefur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×