Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil og margs konar áhrif á íslenskt íþróttalíf. Lítið er um að leikmenn skipti um félag um þessar mundir en handboltamaðurinn Hafþór Már Vignisson var þó seldur frá ÍR til Stjörnunnar.
Hafþór lýsti því í Sportinu í dag með hve óvenjulegur háttur hefði verið hafður á þegar hann skrifaði undir samning sinn við Stjörnuna en segja má að hann hafi gefið orðinu „félagaskiptagluggi“ nýja merkingu:
„Formaður meistaraflokksráðs hjá Stjörnunni, Villi [Vilhjálmur Halldórsson], kom hingað fyrir utan gluggann hjá mér í plasthönskum og rétti mér samning til að skrifa undir í gegnum gluggann. Ég skrifaði undir hann og gaf honum til baka í gegnum gluggann. Þannig reddaðist þetta allt saman,“ sagði Hafþór léttur í bragði.
„Það er spurning hvort að fleiri þurfi að taka upp á þessu?“ bætti hann við en innslagið má sjá hér að neðan.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.