Fótbolti

Rashford vonast til þess að spila með Sancho hjá United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rashford og Sancho fagna marki í Þjóðadeildinni síðasta sumar.
Rashford og Sancho fagna marki í Þjóðadeildinni síðasta sumar. vísir/getty

Marcus Rashford, framherji Manchester United, segir Jadon Sancho frábæran leikmann og vonast til þess að spila með honum einn daginn hjá United en sá síðarnefndi er mikið orðaður við United-liðið þessar vikurnar.

Sancho er leikmaður Dortmund í Þýskalandi og hefur félagið sagt að það muni ekki standa í vegi fyrir honum að yfirgefa félagið í sumar en það verði þó ekki á neinum tombóluprís.

Rashford svaraði spurningum fylgjenda sinna á Instagram í gær og þar bar Sancho á góma.

„Sancho er frábær leikmaður og leikmaður af nýja skólanum. Ég held að við myndum ná vel saman. Það er spennandi að horfa á hann verða þessi leikmaður sem hann er að þróast í að verða. Vonandi getum við spilað saman. Það væri gaman,“ sagði Rashford.

„Sancho er mjög skapandi, hugmyndaríkur og það eru hlutir sem þú þarft að hafa til þess að gera það gott í nútímafótbolta.“

Rashford var einnig spurður út í Bruno Fernandes og áhrif hans á United-liðið.

„Hann er skapandi og hugsar fram á við. Hann vill spila boltanum fram á við og skapa möguleika. Það er gott að spila með honum og vonandi getum við átt góða tíma saman. Hann er jákvæður og kemur með jákvæðan anda inn í liðið.“

„Jafnvel þótt að hann tapi boltanum eða geri mistök þá er hann alltaf hlaupandi til þess að vinna boltann aftur og það hvetur aðra leikmenn. Hann hefur haft jákvæð áhrif svo ég vona að hann haldi áfram,“ sagði Rashford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×