Daglegu upplýsingafundir almannavarna og landlæknisembættisins fara að líða undir lok. Þetta kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundinum í dag, er hún var innt eftir því hvernig upplýsingaflæði til almennings verði háttað samhliða fækkun smita á Íslandi.
Alma sagði að ekkert lægi fyrir um tíðni funda eða fyrirkomulagi þeirra í framtíðinni en mörgum hugmyndum hefði verið velt upp í því sambandi. Þá hvatti hún jafnframt fréttamenn til að koma með tillögur í þeim efnum. Ekki kom fram í máli Ölmu hvenær hætt verður að halda daglega upplýsingafundi.
Innt eftir því hvenær önnur bylgja faraldursins kynni að ganga yfir sagði Alma að það væri ekki vitað. Það væru vangaveltur um að veiran geti látið minna á sér kræla yfir sumartímann en heilbrigðisyfirvöld horfðu fyrst og fremst til þess að hópsmit gætu komið upp innanlands. Viðbrögð yrðu þá í samræmi við það sem verið hefur í tilteknum bæjarfélögum, þar sem grípa hefur þurft til harðari aðgerða.
Ef ný bylgja kæmi upp yrðu daglegir upplýsingafundir sömuleiðis líklega teknir upp að nýju.