Lífið

Lögreglan biður hugsanlega lögbrjóta að geyma glæpi þar til síðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hefur sett fram heldur óvenjulega beiðni.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur sett fram heldur óvenjulega beiðni. vísir/jóhannk

Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum birti í dag færslu á Facebook-síðu sinni sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en bjartsýnni. Þar eru þeir sem íhuga að gerast brotlegir við lög og reglur beðnir um að bíða með allt slíkt vegna ástandsins sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Vegna þess ástands sem nú hefur myndast vegna Covid-19 eða Kórónuveirunnar eins og hún er kölluð biðlar lögreglan til þeirra sem mögulega ætla að brjóta af sér að hætta við allt slíkt uns annað verður tekið fram,“ segir í færslunni.

Þá var fólk einnig hvatt til þess að fara að ráðum Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns, en hann ráðlagði fólki á upplýsingafundi um kórónuveiruna í dag að eiga veirulausan klukkutíma milli átta og níu í kvöld.

„Við viljum þakka ykkur fyrir að sýna þessu skilning,“ segir í lok færslunnar. Ekki liggur fyrir hvort hugsanlegir lögbrjótar umdæmisins ætli að sýna þessari óvenjulegu beiðni lögreglunnar skilning, en leiða má líkur að því að um einhverskonar grín sé að ræða hjá lögregluembættinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×