Aðgerðirnar gilda á landsvísu, en hertar aðgerðir tóku gildi á mánudaginn í síðustu viku. Þá giltu þær fyrir sextíu og níu sveitarfélög Danmerkur en nú munu allir landsmenn þurfa að lúta ströngum sóttvarnareglum.
Einyrkjar þurfa að loka starfsemi sinni frá 21. desember, þar með talið hárgreiðslustofur og sjúkraþjálfarar, og mun samkomubann miðast við tíu manns að hámarki. Mette Frederiksen forsætisráðherra segir stöðuna grafalvarlega.
„Staða kórónuveirufaraldursins er því miður mjög alvarleg. Yfir 22 þúsund hafa greinst með veiruna síðastliðna viku og 15 þúsund vikuna áður. Vitaskuld eru fleiri sýni tekin nú en við sjáum því miður að fleiri eru að greinast jákvæðir.“
Samhliða fleiri smitum fjölgar innlögnum á sjúkrahús og eru 493 vegna Covid-19 samkvæmt danska ríkisútvarpinu, 54 fleiri en voru í gær. Áhættustig var hækkað upp í 4 sem er það næst hæsta samkvæmt kerfinu sem þar er í gildi.
Þó svo að samkomubann miðist við tíu manns biður Frederiksen fólk ekki um að horfa á það sem almenna hvatningu til þess að halda tíu manna samkomur. Þvert á móti ættu sem fæstir að koma saman yfir hátíðirnar.