Meirihluti nefndarinnar leggur til ríflega 55 milljarða útgjaldaaukningu til viðbótar við fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga. Að teknu tilliti til þessa breytinga er gert ráð fyrir að hallinn nemi rúmum 319,9 milljörðum króna á næsta ári, en ekki 264 milljörðum líkt og gert var ráð fyrir í fyrstu drögum frumvarpsins.
Mestu munar þar um 19,8 milljarða vegna viðspyrnustyrkja og sex milljarða vegna framlengingar á hlutabótaleiðinni svokölluðu.
„Frá þeim tíma þegar forsendur frumvarpsins voru ljósar hefur efnahagsframvindan reynst heldur lakari en gert var ráð fyrir. Sú efnahagsþróun er nær því sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti sem dökka sviðsmynd í greinargerð með fjármálaáætlun en grunnsviðsmyndinni sem byggðist á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Í þessu ljósi var ákveðið að bæta við áður ákveðnar mótvægisaðgerðir stjórnvalda og þær kynntar hinn 20. nóvember,“ segir í meirihlutaálitinu.
Þá er jafnframt gert ráð fyrir auknu fjármagni í ýmsa aðra málaflokka. Þannig er til að mynda gert ráð fyrir hátt í 200 milljóna króna hækkun til öryggis- og varnarmála sem heyra undir utanríkisráðuneytið vegna netöryggismála og 64 milljóna hækkun til að mæta útgjöldum vegna samningaviðræðna við Breta í kjölfar Brexit.
Þá er gert ráð fyrir útgjaldaaukningu sem nemur 466 milljónum sem alfarið er ætlað til að greiða „sanngirnisbætur vegna þeirra stofnana þar sem fötluð börn voru vistuð á árum áður,“ líkt og það er orðað í nefndarálitinu.
Þá má nefna 140 milljóna viðbótarframlag til Ríkisútvarpsins þar sem „þar sem tekjuáætlun af útvarpsgjaldi hefur verið uppfærð frá því sem miðað var við í frumvarpinu.“