Innlent

Víðir fékk vökva í æð

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Líðan Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns er ögn skárri í dag en í fyrradag. Víðir greindist með Covid-19 sjúkdóminn fyrir tæpum tveimur vikum. Heilsu hans fór hrakandi í vikunni og á föstudag fékk hann vökva í æð á Covid-göngudeild Landspítalans.

„Hann er ögn skárri en í fyrradag. Þá fékk hann vökva í æð sem hressti hann aðeins við. En hann er náttúrulega bara veikur og glímir við afleiðingarnar af þessu,“ segir Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og staðgengill Víðis.

Í fyrradag fór Víðir í skoðun á Covid-göngudeild Landspítalans vegna íferðar í lungum. Þar fékk hann vökva í æð þar sem vökvinn í líkamanum var ekki nægur.

„Þegar líkaminn er að eiga við svona veikindi þá þarf hann að vera með nægan vökva. Þeir sem hafa veikst þekkja þessar leiðbeiningar sem þeir fá. Fólk þarf að vera mjög duglegt að drekka. Maður þarf að drekka rosalega mikið,“ segir Rögnvaldur.

Víðir Reynisson áður en hann smitaðist af kórónuveirunni.Vísir/Vilhelm

Víðir fór í sóttkví þann 23. nóvember eftir að kona hans greindist með Covid-19. Sólarhring síðar kom í ljós að hann var sjálfur með sjúkdóminn. Hann hefur síðan verið í einangrun. Var líðan hans góð framan af en versnaði svo.

Víðir hefur verið í eldlínunni í kórónuveirufaraldrinum sem hluti af þríeykinu svokallaða sem hann skipar ásamt Ölmu Möller landlækni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.


Tengdar fréttir

Veikindi Víðis fara versnandi

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fór í skoðun á Covid-göngudeild Landspítalans í dag vegna íferðar í lungum. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannvarnadeild ríkislögreglustjóra og staðgengill Víðis, segir Víði kominn heim eftir skoðun. Hann sé brattur miðað við aðstæður.

Víðir nýtur fyllsta trausts Katrínar og Svandísar

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra nýtur trausts Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Víðir lýsti gestagangi á heimili sínu í aðdraganda þess að hann greindist smitaður af Covid-19 á dögunum. Nokkur gagnrýni hefur verið í samfélaginu og háværar raddir um að Víðir hafi ekki fylgt eigin fyrirmælum miðað við frásögn hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×